Fundargerðir 2025
Stjórnarfundur 20. mars 2025
Fyrsti fundur nýrrar stjórnar sem kosin var á aðalfundi Víghóls árið 2025. Fundurinn haldinn í Reykjadal.
20. mars 2025
- Mættar á fundinn eru Birta Jóhannesd., Helena Jónsd., Hólmfríður Ólafsd., og Rakel Baldursdóttir. Í fjarfundarbúnaði eru Ólafía Bjarnad. og, að hluta, Halla Fróða.
- Fundarkonur byrja á að skipta með sér verkum. Olla verður áfram gjaldkeri, Rakel formaður og Fríða ritari. Helena og Birta óbreyttar liðskonur. Tilkynning um breytingu á stjórn fyllt út.
- Ásarnir og grenndarstöð. Helena tekur að sér að senda erindi á Heiðu í áhaldahúsinu sem er okkar tengiliður. Ýta þarf eftir merkingum á Ásunum, ruslatunnum og tæmingu þeirra. Einnig fá að vita hver staðan er með fyrirhugaða grenndarstöð þ.e. hvenær fyrirhugað er að setja hana upp og hvar.
- Vegagerðin. Rakel tekur að sér að senda erindi á Vegagerðina varðandi Þingvallaveg. Ýta eftir yfirborðsmerkingum sem skulu vera sýnilegri en sl. ár og inna eftir svörum um almennt viðhald vegarins. Í maí má byrja að ýta eftir útboði og hvenær það verði kynnt fyrir Dalbúum.
- Heilbrigðiseftirlit. Birta tekur að sér að fara með sýni úr lekri rotþró, við Tjaldanes, á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar. Rakel og Helena senda erindi og ýta eftir að eitthvað verði gert í málinu.
- Hávaðamengun frá Reykjadal. Birta tekur að sér að boða stjórn Reykjadals til fundar til að ræða þetta mál og finna vonandi góða lausn.
- Balinn. Fríða ætlar að sitja um gamla rafmagnsstaura sem má nota sem hestastaura við Balann. Gísli og Snorri ætla að sjá um grill og að slétta túnið.
Önnur mál sem komu til umræðu:
- Hvernig má virkja íbúa Dalsins til að skrifa greinar og erindi?
- Á að endurtaka skrúðgönguna?
- Á að fara fram á talningu ökutækja sem fara um Dalinn?
- Á að skora á bæjarfulltrúa að kanna hversu miklir fjármunir hafa verið settir í útboð og skipulag Þingvallavegar?
- 27. apríl er “plokkdagurinn”. Dalbúar ættu að taka þátt í honum en e.t.v. seinna á árinu.
- Á að hafa samband við Hestamannafélagið Hörð vegna umgengni í áningarstöðum?
- Viljum við setja erindin inná heimasíðuna? Já (Rakel og Olla)
- Hver er staða Dalsins varðandi öryggismyndavélar?
Á fundinum gleymdist að ræða 2 erindi sem voru setta af staða árið 2024. Annars vegar eru það brú/brýr yfir Norðurá við Bakkakot og /eða Víðiodda. Hins vegar lagning stígar fyrir austan Reykjadal. Helena og Rakel munu sjá um að senda fyrirspurn um gang mála.
Fundi slitið.
Aðalfundur Víghóls 2025
Aðalfundur Víghóls 2025
Haldinn í Reykjadal þann 13. mars klukkan 20.00.
Mætt f.h. stjórnar Rakel Baldurs, Sigríður Rún Kristinsdóttir (ritari), Helena Jónsdóttir, Ólafía Bjarnadóttir (gjaldkeri).
Fjarverandi voru Halla Fróðadóttir (formaður) og Sara Hafbergsdóttir.
Dagskrá:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Ársskýrsla stjórnar
3. Reikningar liðins starfsárs lagðir fram
4. Lagabreytingar
5. Félagsgjald
6. Kosning stjórnar og endurskoðanda
7. Önnur mál
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
Samþykkt að Birta Jóhannesdóttir verði fundarstjóri og Sigríður Rún fundarritari.
2. Ársskýrsla stjórnar.
Helena Jónsdóttir les skýrslu stjórnar vegna fjarveru Höllu Fróðadóttur formanns.
Nýtt útivistarsvæði Dalbúa.
Á aðalfundi árið 2024 var ákveðið reyna að finna nýtt útivistarsvæði fyrir Dalbúa í stað Gvendarreits. Haft var samband við Soroptimistakonur í Mosfellsbæ sem hafa haft veg og vanda að því að græða upp svæðið fyrir norðan á og neðan við kirkju. Þær samþykktu að veita Dalbúum afnot af svæðinu alla daga ársins nema annan mánudag í júní ár hvert. Svæðið fékk heitið Balinn eftir lýðræðislega kosningu. Komið hafa upp hugmyndir um að setja þarna upp hestastaur, hlaða veglegt grill, fá fleiri bekki og borð og e.t.v. setja upp fánastöng.
Viðburðir
- Þorrablót var haldið í Harðarbóli þann 31. janúar.
- Víghóll bauð til grillveislu í Balanum 27. júní þar sem boðið var upp á pylsur og drykki. Mæting var sérlega góð og einnig veðrið.
- Jólatré í Æsustaðafjalli
- Víghóll, í samvinnu við skógræktarfélagið í Mosfellsbæ, bauð Dalbúum og venslamönnum að koma í Æsustaðafjall til að sækja sér jólatré á spottprís. Þær Olla og Sara mættu fyrir hönd stjórnar í fjallið og buðu upp á heitt kakó og smákökur. Ekki var mikil sala í ár en einungis 5 tré seldust.
- Kveikt var í hinni árlegu brennu á gamlárskvöld kl. 20.30. Hljómsveit Dalsins, Brak og brestir lék nokkur vel valin lög undir stjórn Kela í Túnfæti.
Þingvallavegur
Þann 12. maí var sent erindi til Vegagerðarinnar þar sem innt var eftir úrbótum í öryggismálum við Þingvallaveg. Spurt var eftir áætlunum varðandi hringtorg, hraðahindranir og upphækkaðan göngustíg. Þess var einnig krafist að málað yrði ofan í þær umferðarleiðbeiningar sem fyrir voru á veginum svo sem heila línu og hraðatakmarkanir. Að lokum var lögð fram beiðni um yfirlit yfir þá vegi sem Vegagerðinni ber að sjá um annars vegar og Mosfellsbæ hins vegar.
Viðbrögð við erindi
- Málað var ofan í heila línu en 7. – 9. júní fóru galvaskar konur af stað með málningu og pensla og máluðu ofan í tölurnar sem sýna hámarkshraða.
- Í svari Vegagerðarinnar kom fram að hraðamyndavélar séu eingöngu settar upp þar sem gögn sýni fram á að hraðakstur sé valdur að fjölda og alvarleika slysa. Þessar vélar eru dýrar og okkur bent á að við getum samið ályktun um málið og sent á Vegagerðina ásamt því að herja á stjórnmálamenn.
- Þann 30. september birtist frétt í Morgunblaðinu þess efnis að Vegagerðin, Mosfellsbær og Hitaveita Mosfellsbæjar hafi boðið út for- og verkhönnun á breytingum á Þingvallavegi. Innifalið í því séu vega- og gatnahönnun, vegamótahönnun, undirgöng og stígar. Hönnun á að vera lokið í maí 2025.
Göngustígar
Í maí voru erindi vegna göngustíga send á Mosfellsbæ. Í fyrsta lagi var óskað eftir samfelldri gönguleið með Norðurá frá Mosfellsvegi að Bakkakotsvelli en þar vantar göngubrú.
Í öðru lagi var óskað eftir göngubrú í Víðiodda þar sem vað er yfir og gamall steyptur brúarstólpi.
Í þriðja lagi var óskað eftir að gerður yrði göngustígur vestan Reykjadals að Reykjahlíðarvegi og þá ekki síst með tilliti til þeirra ungmenna sem dvelja í Reykjadal svo þau þurfi ekki að ferðast meðfram Þingvallaveginum í sínum gönguferðum.
Svar frá bænum var á þá leið að ábendingar og tillögur verði teknar til rýni hjá stjórnsýslunni og eftir atvikum skoðað hvort vinna megi að úrbótum um stígatengingar.
Mengunarmál
Í september var sent erindi til Mosfellsbæjar vegna skólpmengunar sem rennur yfir göngu/reiðstíginn fyrir neðan Tjaldanes. Í svari frá bænum kemur fram að haft verði samband við eiganda og hann beðinn um að lagfæra en sú viðgerð hefur ekki farið fram.
Umgengni á Ásum og grenndarstöð
- Í september var sent erindi til Mosfellsbæjar vegna slæmrar umgengni á Ásunum. Óskað var eftir fleiri ruslatunnum eða örari tæmingum og merkingum sem sýni hvar megi leggja bílum og að ekki sé ætlast til að fólk gangi örna sinna á svæðinu.
- Í svari frá Mosfellsbæ var óskað eftir fundi í Áhaldahúsi bæjarins vegna málsins. Rakel og Helena hittu þar Heiðu sem tók vel í allar hugmyndir varðandi betri umgengni á Ásum og lofaði að ganga í málið. Auk þess viðraði hún hugmynd bæjarins um að setja þar upp grenndarstöð. Vegna hvassviðris sem oft geisar á Ásunum var þessi hugmynd slegin af en hugmyndir eru upp um svæðið fyrir aftan rútuskýlið við Reykjahlíðarafleggjara eða aftan við rútuskýlið á Mosfellsafleggjara.
Reykjadalur styrktur um 200.000 krónur.
3. Reikningar liðins starfsárs.
Ólafía, gjaldkeri, lagði fram reikninga sem voru samþykktir. Reikningar voru skoðaðir og samþykktir af skoðunarmanni reikninga, Gísla Snorrasyni.
Hér að neðan má sjá helstu kostnaðarliði:
Upphafsstaða í banka í byrjun árs var 252.028 kr
Þorrablótið árið 2024 skilaði hagnaði að upphæð 236.771 krónur.
Jólatrjáasala Dalbúa var haldin með hefðbundnu sniði í ár eins og fyrri ár og er vonandi búin að festa sig í sessi. Það seldust 5 tré árið 2024. Trén eru seld á 6000 kr. óháð stærð og voru því 30.000 krónur millifærðar á Skógræktina. Greiðsla til Skógræktarinnar árið 2023 var gerð á árinu 2024 og því er sú hreyfing þarna inni á bankareikningnum. Í fyrra voru því seld 6 tré.
Skuldfærslur á auglýsingasölu fyrir Dalalæðuna árin 2023 og 2024 voru báðar framkvæmdar í fyrra. Auglýsingasala árið 2023 var 186.000 krónur og árið 2024 202.000 krónur, samtals 388.000 krónur en með seðilgjaldarkostnaði 393.075 kr. Prentun og innheimtukostnaður banka voru samtals um 155 þúsund krónur. Að því frádregnu standa eftir 238.382 krónur. Hún Sigríður Rún okkar hefur séð um uppsetningu á blaðinu eftir að Artpro hætti. Á Víghóll eftir að semja við hana og fá senda reikninga frá henni vegna þeirrar vinnu.
Félagsgjöld, að upphæð 5000 kr, voru send út á 96 einstaklinga í október í fyrra. Greitt félagsgjald er per heimili og hafa því einstaklingar, eldri en 18 ára, innan hvers heimilis atkvæðisrétt á aðalfundum Víghóls. Heildarupphæð útsendra félagsgjalda árið 2024 voru 480.000 kr og greidd félagsgjöld voru 370.000 kr sem eru um 77% af útsendum félagsgjöldum. Seðilgjöld vegna félagsgjalda voru í heildina 11.100 kr og frádreginn innheimtukostnaður banka 10.544 krónur. Að frádregnum kostnaði frá banka standa 370.556 krónur eftir.
Styrkur var veittur til Reykjadals að upphæð 200.000 krónur árið 2024
Það var haldinn pylsuveisla á Balanum okkar nýja í lok júní og var veitingar kostnaður vegna þess 29.745 krónur
Ýmiss kostnaður eins og t.d. veitingar vegna aðalfundarins árið 2024, lén og tölvupóstur fyrir Víghól voru samtals 100.410 krónur.
Hreyfingar ársins 2024 er þá 482.998 krónur.
Staða í banka í lok árs var 736.026 krónur.
4. Lagabreytingar.
Lagðar voru fram eftirfarandi lagabreytingar:
6.gr. að fyrirvari um lagabreytingar fari úr tveggja vikna fyrirvara í þriggja vikna.
7.gr. að stjórnarmenn sitji í tvö ár í stað eins.
8.gr. að félagsmenn teljast ábúendur eldri en 18 ára á hverju heimili.
Allar tillögur voru samþykktar.
5. Félagsgjald
Samþykkt að félagsgjöld haldist óbreytt, 5000 krónur per heimili.
6. Kosning stjórnar og endurskoðanda.
Halla Fróðadóttir, Sigríður Kristinsdóttir og Sara Hafbergs hætta í stjórn. Birta Jóhannesdóttir og Hólmfríður Ólafsdóttir bjóða sig fram í stjórn. Ólafía Bjarnadóttir, Rakel Baldursdóttir og Helena Jónsdóttir halda áfram í stjórn. Gísli Snorrason verður áfram skoðunarmaður reikninga.
Ný stjórn samþykkt.
7. Önnur mál.
Helena Jónsdóttir ræðir brennumál. Það vantar ábyrgðarmann fyrir áramótabrennuna. Gísli í Brekkukoti hreinsaði sjálfur til í brennunni síðustu áramót. Þröstur og Júlí bjóða sig fram sem hreinsunarmenn brennusvæðis og hljóta lófaklapp fyrir.
Rakel Baldursdóttir hefur verið að vinna í heimasíðunni mosfellsdalur.is og er hún nú opin. Dalalæðurnar frá 2013 komnar inn og verið að vinna í að koma öllum Læðunum inn á síðuna. Markmiðið er að hafa síðuna sem upplýsingasíðu Dalbúa til viðbótar við facebook síðuna “Íbúar í Mosfellsdal”. Dalbúar eru hvattir til að senda netföngin sín inn á vigholl@mosfellsdalur.is til að hægt sé að útbúa póstlista.
Ritnefnd Dalalæðunnar – Halla Fróðadóttir segir sig úr ritnefnd í bili, Sigríður Rún heldur áfram. Óskað er eftir öðrum ritstjóra. Elías Ágústsson býður sig fram í ritnefnd.
Balinn – Óskað er eftir samþykki að Víghóll leggi fram peninga fyrir fánastöng, hestastaur og grilli í Balann. Rætt er um klósettaðstöðu, en það þykir dýrt að setja hana upp. Víghóll ætlar að athuga með kostnað. Athugasemd er sett fram varðandi grillaðstöðu í Balanum vegna aðsókn túrista. Gísli í Brekkukoti og Snorri Gísla bjóða sig fram við að setja upp grill og fánastöng. Hugmynd um að halda vinnudag í Balanum – Víghóll fær hrós fyrir vel unnin störf. Samþykkt að Víghóll leggi fram peninga í framkvæmdir.
Svæðið fyrir vestan Reykjadal er til háborinnar skammar. Dalbúar eru hvattir til að senda inn ábendingar til Mosfellsbæjar vegna þess. Mosfellsbær á landið. Athuga með að útbúa tilbúinn texta sem Dalbúar geta notað.
Stungið upp á að laga stíginn með styrkjum til Reykjadals. Þar sem það þurfi að viðhalda stígnum ætti Mosfellsbær að sjá um uppsetningu og viðhald. Best er ef íbúar í Dalnum taki sig saman og herji á Mosfellbæ auk Víghóls. Dalbúar greiða útsvar því má ekki gleyma!
Vegamálin á Þingvallavegi – Talað er um að það sé varla pláss fyrir veginn þar sem hús séu sumstaðar of nálægt. Vegagerðin saltaði málið. Talið er að núverandi vegur hafa verið gerður í hraði og það sjáist og finnist. Fundargestum finnst rútufjöldinn allt of mikill.
Fundi slitið kl. 20.49
Stjórnarfundur 3. mars 2025
Fundur stjórnar
3. mars 2025 - Internetið
Mætt: Rakel, Helena, Sara, Sigga, Olla
Rætt hverjir ætla að hætta og halda áfram. Rakel, Olla og Helena halda áfram. Sara og Sigga ætla að hætta. Helena ræðir við vænlega félaga
Rætt verður á aðalfundi að breyta lögum félagsins
1. að stjórnarmenn sitji í tvö ár en ekki eitt
2. að það þurfi að tilkynna breytingu á lögum með fyrirvara fyrir aðalfund.
Hugmyndir að umræðum í “önnur mál” á aðalfundi:
1. að hækka greiðsluna til Reykjadals úr 100 í 150þ á ári.
2. að kaupa fánastöng í Balann
3. að SiggaRún útbúi hugmyndir að lógói fyrir Víghól
Hugmynd að fundarstjóra: Birta Jóhannesdóttir
Formaður þarf að setja saman skýrslu stjórnar, einnig spurning hvernig Halla mun sækja fundinn. Helena tékkar á Höllu
Sigga mun halda áfram sem ritstjóri Dalalæðunnar þrátt fyrir flutning.
Sigga setur inn tilkynningu um aðalfund inn á facebook viku fyrir fund.
Fundi slitið.
Stjórnarfundur 14. janúar 2025
Fundur stjórnar
14. janúar 2025 – Verkstæðið, Mosfellsbæ
Mætt: Halla (zoom), Sigga, Rakel, Helena og Olla
Engar frekari upplýsingar hafa borist frá Vegagerðinni varðandi hraðamyndavélar. Ákveðið var að Halla sendi fyrirspurn um hvort það sé teljari á hraðamælinum við Hraðastaðaafleggjarann og hvort hægt sé að setja upp skilti beggja vegna í dalnum sem vara við varhugaverðum gatnamótum.
Einnig var rætt að þarft sé að fylgja eftir að framkvæmdir við Þingvallaveg verði einhvern tímann að veruleika.
Soroptimistafélagið sendi póst og bað um samstarf með dalbúum varðandi Balann og var það auðvitað auðsótt. Þær vilja setja upp skilti við blettinn sem lýsir hvernig hann varð til en þær hafa verið ötular að gróðursetja tré þar undanfarin ár og vilja þannig afhenda formlega dalbúum reitinn, nema þriðja mánudaginn í júní.
Helena ætlar að athuga með bekki hjá Nonna í Mosskógum fyrir Balann.
Samþykkt var að halda aðalfund 13. Mars 2025.
Enn hefur ekki verið gengið frá eftir áramótabrennuna og mun Víghóll ganga í málið.
Rætt var að Víghóll mætti alveg við nýju lógói sem nýtist bæði á vefmiðlum og í prenti. Ákveðið var að Sigga myndi koma með nokkrar tillögur og að rætt yrði um málið á aðalfundi.
Rakel ætlar að ýta á eftir svörum frá heilbrigðiseftirlitinu varðandi opna skolplögn við Tjaldanes.
Rætt var hvort Víghóll eigi að halda áfram að selja jólatré fyrir skógræktina í desember. Ákveðið var að fresta ákvörðun fram á haust.
Rakel stakk upp á óvissuferð fyrir dalbúa í vor þar sem enda yrði í Balanum. Vel var tekið í hugmyndina.
Að lokum var rætt að kaupa fánastöng fyrir Balann og verður hugmyndin borin upp á aðalfundi.
Fundi slitið.
Fundargerðir 2024
Stjórnarfundur 25. september 2024
Fundur stjórnar
25. September 2024 kl. 20 – Dalsgarður og messenger.
Mætt: Sigga, Sara, Rakel, Helena og Halla.
Olla er tekin við gjaldkera stöðu Víghóls
Minna Ollu á að félagsgjöldin voru hækkuð á síðasta aðalfundi upp í 5000kr.
Þjóðskrá veitir ekki lengur aðgang að heimilisföngum landsmanna. Olla biður um aðstoð við að finna út hverjir búa í dalnum.
Halla fékk svar frá vegagerðinni (Pétri). Víghóll (Halla) semur ályktun um vegamálin á Þingvallavegi.
“Heilbrigðiseftirlit Dalbúa”, vegna skólps sem lekur yfir reiðveginn aftan við Tjaldanes.
Sara ætlar að gramsa í gömlum gögnum um mengun á Tjaldanesi.
Setja tilkynningu á facebook grúppuna að Hraðastaðir séu ekki með snjómoksturinn í vetur. – Helena
Síðasta jólaball sem var haldið í dalnum var um 2018, rætt að endurvekja það. Hugsanlega í Nóvember eða byrjun Desember.
Stefnt í Æsustaðafjall í desember, reyna að hafa nokkra daga til vara ef veðrið er slæmt.
Dalalæðan, stefnt að útgáfu í Janúar.
Sækja bekkina til Nonna og færa þá í Balann. Skoða að setja hestastaur upp næsta vor. Halla skoðar málið, mögulega verður Hákon settur í þetta. Vantar útigrill, reyna að finna einhvern til að vinna í því. Athuga Lexa og Emil. Athuga hvort Olla geti rætt við drengina.
Stefnufundur fyrir 2025
Ákveðið að hafa hann í Nóvember.
Næsti fundur verður 28 október.
Fundi slitið kl. 21.00
Stjórnarfundur 11. september 2024
Fundur stjórnar
- september 2024 kl. 20 – Roðamói og messenger.
Mætt: Sigga, Sara, Rakel og Helena. Olla gjaldkeri mætti á fundinn til að fá undirskriftir.
Áhyggjufullir íbúar nálguðust Víghól vegna skólps sem rennur yfir reiðstíginn á bak við Tjaldanes. Samþykkt var að senda erindi á heilbrigðiseftirlitið og Mosfellsbæ vegna þessa.
Rætt var um umgengni uppi á Ásum, sem er ábótavant. Samþykkt að senda erindi á Mosfellsbæ – Sara
Athuga fyrir næsta fund að spyrja Höllu um stöðu á bréfunum sem voru send lögreglunni og Vegagerðinni, varðandi hraðamyndavélar
Skrifa pistil á facebook varðandi Balann – Sigga
Fundi slitið kl. 20.40
Stjórnarfundur 5. júní 2024
Stjórnarfundur 5. júní 2024
Fundur stjórnar
5. Júní 2024 – Dalsgarði 1.
Mætt: Halla, Sigga, Sara, Rakel og Helena. Gísli Snorrason mætti í upphafi fundar sem umsjónarmaður nýja Dalareitsins.
Umsjónarmaðurinn hefur kíkt á svæðið og líst vel á en þykir það mögulega þýft. Sigga segir það einnig stundum blautt. Rætt að fá bekki og borð á svæðið hjá Áhaldahúsinu, einnig sorptunnu sem er dýraheld. Gísli athugar.
Skoða hvort Snorri Gísla sé til í að útvega hleðslu fyrir grill. Gísli ætlar í málið.
Spurning hvort einhver sé aflögufær með hellur undir grillið.
Athuga hvort að einhverjir dalbúar eigi til símastaura til að útbúa hestaaðstöðu.
Pylsupartí fyrirhugað með stuttum fyrirvara í lok júní eða byrjun júlí – fer eftir veðri. Athuga með að útbúa facebook event og passa að eldri kynslóðin fái fregnir af viðburðinum!
Rætt að hafa samband við Áhaldahúsið varðandi að hreinsa brennusvæðið eftir áramótin (og reyna að gera það að hefð). Tengill þar er Bjarni Ásgeirsson.
Ólafía Bjarnadóttir tekur við gjaldkerastöðu en situr ekki í stjórn að öðru leiti. Samþykkt á fundi.
Víghól vantar uppfærðan íbúalista.
Rætt var að breyta þarf lögum félagsins vegna félagsgjalda og atkvæðaréttar. Það verður rætt nánar síðar og tekið fyrir á aðalfundi.
Mikil óánægja var meðal dalbúa með vegamálunina sem sett var á Þingvallaveginn fyrir sumarið. Hvergi var bætt í vegamerkinguna “70” og línan í gegnum dalinn er strax farin að láta á sjá. Stjórnarmeðlimir ætla í málið …
Mosfellsbær tók fyrir málin sem Víghóll sendi inn eftir síðasta fund, varðandi göngustíga og brýr, og var málunum frestað vegna tímaskorts.
Rætt var að senda á umhverfisstjóra og framkvæmdastjóra umhverfissviðs að dalbúar séu afar ánægðir með snjómoksturinn í dalnum sem er á vegum Tjaldhóls. Rakel og Helena taka að sér.
Fundi slitið.
Stjórnarfundur 15. maí 2024
Fundur stjórnar
14. maí 2024 – Dalsgarði 1.
Mættar: Halla, Sigga, Sara, Rakel og Helena.
Rætt um að framkvæma gjörning til að knýja fram viðbrögð hjá Vegagerðinni varðandi framkvæmdir á Þingvallavegi. Frumdrög eiga að vera tilbúin og forhönnun lokið en ekkert gerist og framkvæmdum er ítrekað ýtt aftur. Víghóll vill fá fund með Vegagerðinni til að ræða þessi mál. Rakel tekur saman tímalínu.
Ýta á eftir öryggismyndavélum sem áttu að koma eftir 2023. Máli óúthlutað.
Athuga með snjómokstur næsta vetur. Tala við Mosfellsbæ. Miðla mikilli ánægju með núverandi fyrirkomulag. Rakel og Helena taka það að sér.
Rætt um að fá fund með bæði Vegagerðinni og Mosfellsbæ saman til að gera kort af hver á hvaða veg hérna. Málið er í bið.
Mygla í Mosfellskirkju? Halla skoðar málið.
Ræða við Óla fyrrv. formann varðandi tengil vegna brunahana máli. Enn vantar einn brunahana í dalinn. Máli óúthlutað.
Leggja til göngubrú við golfvöll og Víðiodda. Rakel og Helena taka að sér að semja bréf til Mosfellsbæjar.
Taka mynd af brú við Vindhól – Sigga fer í það.
Stígur milli Reykjadal og Reykjahlíðarvegar fyrir krakkana í Reykjadal. Helena og Rakel semja bréf til Mosfellsbæjar.
Nýji reiturinn þarf annað nafn en Gvendarreitur. Stungið upp á Dalslundur. Dalalundur. Dalalaut.
Annan mánudag í júní eiga Soroptomistar reitinn … Einróma áhugi um samstarf við Soroptomista.
Hugmynd að hafa pylsupartý með stuttum fyrirvara vikuna eftir 17.júní til að kynna nýja reitinn og mögulega hafa plokkdag. Skipulag verður rætt á næsta fundi.
Athuga hver tekur til eftir áramótabrennuna. Máli óúthlutað.
Rætt hver verður gjaldkeri, enginn áhugi hjá stjórnarkonum að taka það að sér. Sigga vill hætta sem gjaldkeri og tekur að sér hlutverk ritara.
Bjóða Gísla í Brekkukoti á næsta fund til að ræða nýja reitinn en hann er umsjónarmaður hans.
Næsti fundur verður 3. júní.
Fundi slitið.
Aðalfundur Víghóls 2024
Aðalfundur Víghóls 2024
Haldinn í Reykjadal þann 18. apríl klukkan 20.00.
Mætt f.h. stjórnar Halla Fróðadóttir og Sigríður Rún Kristinsdóttir.
Fundarstjóri er Jóhannes Valberg. Fundarritari Sigríður Rún.
Dagskrá:
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Ársskýrsla stjórnar
- Reikningar liðins starfsárs lagðir fram
- Lagabreytingar
- Félagsgjald
- Kosning stjórnar og endurskoðanda
- Önnur mál.
- Ársskýrsla stjórnar.
Jólatrésalan var 16. desember í geggjuðu veðri. Þó nokkur tré seldust.
Áramótabrennan var haldin með pompi og prakt undir stjórn nýrrar kynslóðar í brennustjórnun. Tónlistinni var reddað af Bjarka og Erni Kjernested yngri þar sem Keli var vant við látinn. Vel var mætt og veðrið gott. Baddi skóf svæðið í kring svo að nóg var af bílastæðum og plássi.
Þorrablótið 2024 skilaði hagnaði og uppselt í ár. Nefndin vill engu ljóstra upp með næsta blót.
Gvendarreitur. Fyrir 2 árum var ósk fundarmanna að endurvekja Gvendarreitinn. Tíminn hefur farið illa með gamla lundinn, aðgengið er nánast ekkert og engin bílastæði. Rætt var við kirkjuna að fá svæðið nálægt brennustæðinu. Soroptomistafélagar hafa verið að nýta svæðið 1. sinni á ári en hafa gróðursett mikið og eiga bekki í lundinum. Kirkjan gaf svar að Víghóll og dalbúar mættu nýta reitinn. Skilyrði er að setja ekki varanleg mannvirki, enginn kostnaður má falla á kirkjuna og engar brennur fyrir utan áramótabrennuna. Ef nýting jarðarinnar breytist má kirkjan draga til baka leyfið. Soroptimistafélagar Mosfellsbæjar ætla að ræða hvort dalbúar og félagið geti nýtt reitinn saman. Samningur við gamla Gvendarreitinn rennur út á næsta ári. Almenn ánægja með nýja reitinn meðal mættra. Spurning með sorphirðu og umgengni. Skipuleggja dalbúadag í sumar til að kynna reitinn.
Göngustígar. Engin breyting á þeim málum. Víghóll fór á fund með Mosfellsbæ útaf vegamálum og göngustígum. Sú fundargerð liggur fyrir. Stungið upp á að reiðstígurinn meðfram Köldukvísl verði nýttur sem göngustígur og sett göngubrú yfir ánna eins og sú sem er við Vindhól og undirgöngin. Víghóll mun fara yfir þau mál.
Ný vatnslögn getur verið fyrsti áfangi í göngustíg meðfram Þingvallavegi, hana á að leggja. Passa að göngustígurinn verði löglegur fyrir gangandi og hjólaumferð.
Ný gönguleið hefur verið stikuð upp á Mosfellið.
Vegagerðin. Fjármagni til vegagerða frestað til 2027. Mosfellsbær nær ekki sambandi við Vegagerðina til að fá svör. Miðjumerkingin sést ekki og þá fara allir að taka fram úr. Þarf varanlegri lausn. Spurning að fá báða aðila á fund að fá niðurstöðu um á hver á hvaða vegi í dalnum og hver á að hugsa um þá.
Aðalskipulag. Ekki enn samþykkt. 1 ha lóðir enn skipulagðar.
Styrkur til Reykjadals verður 200þ. Samþykkt.
- Reikningar liðins starfsárs.
Reikningar samþykktir með fyrirvara um að endurskoðandi samþykki þá.
- Lagabreytingar.
Engar breytingar
- Félagsgjald
Leggja til að hækkun sé 5000 kr per heimili. Samþykkt með meirihluta.
Nýbúar fá ekki rukkanir, þarf að skoða.
- Kosning stjórnar og endurskoðanda.
Ólafur óskar eftir að hætta, Guðný hættir.
Sara Hafbergsdóttir, Halla Fróðadóttir og Sigríður Rún Kristinsdóttir verða áfram. Helena Jónsdóttir og Rakel Baldursdóttir bjóða sig fram í stjórn.
Ný stjórn samþykkt.
- Önnur mál.
Íbúi talaði um í sambandi við hækkun á félagsgjaldi hvort það verði til framtíðar eða til að safna fyrir nýja reitnum. Málið verður skoðað.
Íbúi minntist á að passa þurfi upp á eldsmat í nýja reitnum.
Stjórnin minntist á að annan mánudag í júní má ekki trufla Soroptimista.
Hestabindistaur er ein hugmynd fyrir nýja reitinn. Athuga með nafn á nýja reitinn.
Íbúi ræðir ljósastaura mál. 20 staurar í vetur myrkir. Umferðaröryggi ábótavant vegna mismikillar birtu. Gert við ljósastaurana á vorin og svo eru þeir bilaðir á veturna. Ljóstvistar eru með þetta. Víghóll ætlar að athuga málið.
Margir ósáttir við hjólreiðafólk á Þingvallaveginum. Engin lausn í sjónmáli. Hjólreiðamenn eru með ábendingar um að samgöngum frá Þingvallavegi að Stardal sé ábótavant.
Fundi slitið kl. 21.00

Fundargerðir 2023
Fundargerðir 2022
Fundargerðir 2021
Fundargerðir 2020
Fundargerðir 2019
Fundargerðir 2018
Proudly powered by WordPress
Upplýsingasíða Dalbúa
Designed with WordPress